Ég glímdi við alvarlegan kvíða í mörg ár. Kvíðinn tók yfir flest svið lífs míns og stjórnaði því.
Kvíðinn réðst á sjálfsmyndina mína með stöðugu neikvæðu sjálfsniðurrifi, „þú ert ekki nógu
góð, þér mun mistakast, aðrir eru að dæma þig, þú sagðir/gerðir eitthvað vitlaust, þú lítur
illa út, þú ert vonlaus..“ osfrv.

Kvíðinn réðst á vinnuna mína, gerði mig óörugga í starfi, fékk mig til að efast stöðugt um
eigin getu og ágæti í vinnu.

Kvíðinn réðst á frítíma minn svo að ef ég fór t.d. í utanlandsferð, þá var ég með ferðakvíða í
aðdraganda ferðarinnar, stöðugar áhyggjur af ferðalaginu. Skyldi ég hafa gleymt einhverju,
týnt vegabréfinu, kannski yrði ég rænd eða voru hryðjuverkamenn á ferð til að sprengja upp
flugvöllinn?

Kvíðinn réðst á fjölskyldulíf mitt og eftir að ég átti eldri son minn var ég lömuð af kvíða hvern
einasta matmálstíma því ég var svo hrædd um að matarbiti myndi standa í syni mínum og
hann kafna. Ég skar allan mat í pínulitla bita og beið af mér hvern matmálstíma með
kvíðahnút í maganum.

Samhliða versnandi kvíða fór heilsufar mitt almennt versnandi. Ég var með króníska
vöðvabólgu, verki í kjálkum, öxlum og baki. Stundum fékk ég random verki í handleggi eða
fótleggi, svokallaða ,,flökkuverki“. Og ég var örþreytt, alltaf geispandi, aldrei úthvíld. Suma
daga átti ég mjög erfitt með að vinna vinnudaginn, þegar kl. var 12 á hádegi þurfti ég jafnvel
að leggjast niður og hvíla mig, ég var svo þreytt og verkjuð. Kvíðinn hélt áfram að ljúga að
mér: ,,þú verður öryrki, þú ert bara sjúklingur, þú munt ekki geta séð fyrir fjölskyldunni
þinni… osfrv“. Ég afplánaði lífið og naut einskis.

Enginn virtist geta hjálpað mér, hvorki læknar, sjúkraþjálfarar, osteopatar, kírópraktorar,
bitkjálkasérfræðingar, sálfræðingar, ég reyndi allt sem mér datt í hug en engin varanleg
lausn var í boði. Ég var alltaf jafn verkjuð og það fór bara versnandi. Sjúkraþjálfarinn óttaðist
að ég væri með vefjagigt, öll einkennin pössuðu.

Í algerri örvæntingu fór ég að stunda hugleiðslu með þeim ásetningi að fá bata. Á hverjum
einasta degi settist ég niður og þvingaði hugann til að fókusa á batann. Alla daga. Fljótlega
fór ég að finna áhrif sem ég síðar skildi að um var að ræða heilunarkraft sem býr í
undirmeðvitund okkar allra. Við tók stórkostlegasta bataferðalag lífs míns. Í gegn um
hugleiðslu, dáleiðslu og orkuheilun tókst mér að fjarlægja rætur kvíðans, rætur verkjanna og
síþreytunnar. Með því að endurnýja hugarfarið, með því að öðlast heilbrigt hugarfar, náði
ég varanlegum og fullum bata frá öllum þessum neikvæðu einkennum. Ég hef lært það að
hugsanir okkar skipta grundvallarmáli fyrir lífsgæði og heilsufar okkar.

Í dag lifi ég kraftmiklu, heilbrigðu og hamingjuríku lífi. Ég er algerlega frjáls frá öllum
óheilbrigðum kvíða. Ég er 100% verkjalaus, frjáls frá vöðvabólgunni og líður ótrúlega vel í
öllum líkamanum. Ég er orkumikil, hraust og finn sjaldan fyrir þreytu. Ég get auðveldlega
unnið heilan vinnudag og samt haft næga orku til að sinna börnunum mínum og heimili eftir
vinnu. Ég er með heilbrigða og sterka sjálfsmynd og hef sjálfsöryggið til að elta drauma mína
og vera ég sjálf. Ég nýt þess að vera með börnunum mínum, að vera í vinnunni að lifa lífinu.
Síðan ég fékk þetta frelsi hef ég með dáleiðslu og námskeiðum hjálpað öðru fólki sem er í
þeim sporum sem ég var áður að fá frelsi og bata. Það er nefnilega til uppskrift að heilbrigði,
frelsi, bata og hamingju. Hún er til og hún er í boði fyrir alla. En það er vinna að fá frelsi, það
þarf að leggja þá vinnu á sig en ég get lofað þér því að það er margfalt þess virði!

Ef þú hefur áhuga á að kynna þér betur hvað þú getur gert til að fá frelsi bendi ég á opnu
facebook grúppuna mína Frelsi frá kvíða. Þar er að finna fyrirlestra, dáleiðslur, fræðslu um
það hvað ég gerði til að fá mitt frelsi og bata, hvað veldur kvíða, hvað getum við gert sjálf,
o.fl.

Lífið er allt of stutt, fallegt og dásamlegt til að lifa því í kvíða, verkjum og eymd. Þú hefur
mikla meira vald yfir heilsu þinni og líðan en þú heldur. Komdu með í bataferðalag!

Höfundur er dáleiðari, orkuheilari og fyrirlesari