Undanfarna mánuði hefur heimssamfélaginu verið stýrt af ótta við COVID19. Vegna þess ótta er fólk tilbúið að láta frelsisskerðingar yfir sig ganga sem eru í reynd með ólíkindum. Ekki fara í frí. Vertu heima hjá þér. Ekki koma nálægt öðru fólki. Ekki fara í vinnuna. Ekki fara með barnið þitt í skólann. Ekki fara út að skemmta þér. Ekki ferma barnið þitt. Ekki fara á nammibarinn. Fólk er orðið logandi hrætt við annað fólk. Ekki hósta, einhver gæti haldið að þú værir með covid.

Fólk er hrætt. Fólk er stressað. Fólk einangrar sig. Fólk dæmir aðra sem gera ekki eins og það. Fólk hneykslast á þeim sem eru ekki hræddir við veiruna og láta hana ekki stjórna lífi sínu. Fólk telur að þeir sem fari á nammibarinn eða í partý séu að skemma fyrir öllum hinum og “dreifa veirunni um allt samfélagið”.

Stjórnvöld spila óttaleikinn vel og auka á óttann í samfélaginu. Stjórnvöld eru óttaslegin sjálf og bregðast við eins og þau telja að samfélagið vilji að þau bregðist við. Í sumar fékk þríeykið svokallaða fálkaorðuna fyrir “framlag í baráttu við Covid-19 faraldurinn”. Allir hrópuðu húrra og klöppuðu. Þríeykið fékk hálfgerðan ofurhetjustatus í samfélaginu fyrir að stöðva dreifingu með hörðum sóttvarnaraðgerðum. Fólk var innilokað heima hjá sér, börn fóru ekki í skóla eða leikskóla. Hvaða sigur var eiginlega unninn með því? Hver var eiginlega snilldin, maður spyr sig.

Fjórum mánuðum seinna, erum við enn í nákvæmlega sömu sporum. Hvað í ósköpunum hefur áunnist í þessari meintu baráttu? Þetta er tapað stríð og þetta vita stjórnvöld. Það er engin leið að útrýma þessari veiru, hún er komin til að vera. Í stað þess að láta þetta ganga yfir sem hraðast og vernda sérstaklega þá hópa sem eru viðkvæmir eða í áhættu, er verið að lengja í hengingarólinni og draga “ástandið” á langinn, út í hið óendanlega. Á meðan eigum við að vera frelsisskert, atvinnulaus, hrædd, stressuð og einangruð. Enginn á að lifa eðlilegu lífi.

Enginn vill fá þessa hryllilegu veiru sem hefur sett alheiminn á hliðina. Allir eru logandi hræddir. Fáir virðast átta sig á þeirri staðreynd, að því hræddari sem þú ert, því meiri líkur eru á að þú fáir veiruna. Því hræddari sem þú ert ef þú færð svo veiruna, því meiri líkur eru á að þú verðir alvarlega veikur, þurfir jafnvel að leggjast inn á spítala, fremur en að vera einkennalítill eða einkennalaus. En það er ekki veiran sem stýrir því, heldur óttinn sjálfur.

Ótti er neikvæð tilfinning sem þó getur haft jákvæð áhrif fyrir okkur. Tilgangur óttans er að búa til streituástand í líkama og huga okkar, til að gera okkur í stakk búin til að forða okkur frá tímabundinni, skyndilegri hættu, eða berjast við hana. Streituhormón flæða um líkamann og blóðið pumpast í útlimina. Öll okkar orka fer í að verjast gegn hættunni eða flýja undan henni. Á meðan á þessu hættuástandi stendur stöðvast önnur eðlileg líkamsstarfsemi, t.d. melting, endurnýjun frumna og virkni ónæmiskerfisins. Þetta er í fínu lagi í stutta stund en þegar ástandið verður viðvarandi, skapar þetta mikla hættu.

Streita, sem afleiðing ótta, slekkur þannig á ónæmiskerfinu. Hinni einu sönnu vörn sem við höfum, gegn þessari covid-veiru. Allt spritt veraldar hefur ekki roð við sterku og öflugu ónæmiskerfi. Samt segja stjórnvöld okkar helstu varnir vera spritt og einangrun. Þetta er rangt. Besta vörnin okkar er að styrkja ónæmiskerfið okkar. Það er vörn sem bítur.

Því hræddari sem við erum, því meiri streita byggist upp innra með okkur og því veikara verður ónæmiskerfið okkar. Því veikara sem ónæmiskerfið er, því meiri líkur eru á að sýkjast af veirunni og í reynd hvaða veirum eða bakteríum sem er. Og þegar við höfum sýkst á annað borð, ef ónæmiskerfið okkar er veikt fyrir, er líkaminn okkar mun verr í stakk búinn til að berjast gegn veirunni. Það er ástæða þess að einstaklingar geti hrunið niður í kjölfar þess að fá fréttir af því að vera með covid. Ótti, hræðsla, kvíði og skelfing = slekkur á ónæmiskerfinu. Ótti og hræðsla er það versta og síðasta sem samfélag okkar þarf um þessar mundir. Hvert er Mótefnið? Kærleikur. Þakklæti. Vísindin hafa sýnt hversu jákvæð áhrif kærleikur og þakklæti hafa á virknina í ónæmiskerfinu okkar. Í hvert sinn sem óttinn lætur á sér kræla, hafna honum og sýna kærleik. Vera þakklát. Okkur líður eins og við hugsum. Þegar við hugsum um það sem við elskum mest, finnum við fyrir kærleika. Þegar við hugsum um allt það sem við höfum að vera þakklát fyrir, finnum við fyrir þakklæti. Þetta er æfing, en góð er hún.

Með kærleika og þakklæti,
Sara Pálsdóttir dáleiðari og heilari.