Enska orðið yfir hugleiðslu, eða „meditation“, þýðir að verða meðvitaður, að þekkja sjálfan sig.

Við hugsum 60.000-70.000 hugsanir á dag. 90% af þessum hugsunum eru sömu hugsanirnar og við hugsuðum daginn áður, og daginn þar áður, o.s.frv.

Vísindin og reynslan hefur sýnt að okkur líður eins og við hugsum og við hugsum eins og okkur líður. Ef við hugsum alltaf eins, þá mun líðan og líf okkar ekki breytast.

Ef að við vöknum á morgnanna og förum strax að hugsa streituhugsanir – um vinnuna, sambandserfiðleikana, bakverkinn, óþolandi samstarfsmanninn, o.s.frv. kveikjum við um leið á streitutilfinningum og vanlíðan. Þessar tilfinningar, kvíði, streita, óánægja, o.fl. virkja svo aftur samsvarandi hugsanir. Þannig er unnt að festast í hringrás neikvæðra hugsana og tilfinninga sem brýnt er að komast út úr.

Líf okkar er spegill af því hvað við hugsum. Veröld okkar er sú sem við hugsum að hún sé. Við sjáum í reynd ekki með augunum, heldur með heilanum. Ef við hugsum neikvætt verður líf okkar neikvætt. Ef við hugsum jákvætt verður líf okkar jákvætt.

Með hugleiðslu er hægt að breyta sjálfum sér, breyta heilanum, huganum og líkamanum.

Með hugleiðslu öðlumst betri sjálfsþekkingu, getum horft inn á við og verðum meðvituð um hvað við erum að hugsa allan liðlangan daginn. Um leið og við förum að taka eftir því hvað við erum að hugsa, þá förum við að geta tekið skref í átt að því að breyta þessum hugsunum.

Með hugleiðslu fáum við betri skilning á því hver við erum og hvað er að gerast innra með okkur og hvað við þurfum að gera til að öðlast betra líf, betri líðan og/eða ná fram þeim breytingum sem við þráum.

Með hugleiðslu slökum við á og vinnum gegn streitu og kvíða. Þannig er það ekki eingöngu líkaminn sem slakar á í hugleiðslunni, heldur einnig hugurinn. Þegar hugur og líkami lærir að slaka á förum við að vinna gegn skaðlegum áhrifum streitunnar, t.d. hafa rannsóknir sýnt að hugleiðsla styrkir ónæmiskerfið, getur virkað eins og áhrifarík flensusprauta, ýtir undir endurnýjun fruma líkamans, dregur úr öldum og eykur vellíðan, slökun og ánægju. Við verðum heilsuhraustari, glaðari og afslappaðri. Lífið verður betra.

Það var dásamlegt að sjá fréttir af þeim ótrúlega árangri sem Borgarholtsskóli náði með því að kenna starfsfólkinu sínu að stunda innhverfa íhugun eða hugleiðslu. Kostnaður vegna langtímaveikinda starfsfólks lækkaði um tvo þriðju, en fyrir skólann var þetta spurning um tugi miljóna kostnað sem sparaðist.

Þú þarft ekki að vera hugleiðslugúru eða munkur til að stunda hugleiðslu. Allir geta hugleitt. Þú þarft ekki annað en að setjast niður, loka augunum, draga djúpt inn andann og slaka á. Æfingin skapar meistarann!

Meiri fróðleik tengdan þessu má finna á facebook síðu undirritaðrar:
https://www.facebook.com/Sara-P%C3%A1lsd%C3%B3ttir-d%C3%A1lei%C3%B0ari-107778964021951/?modal=admin_todo_tour